Öldungur í röndóttum náttfötum

Hvítserkur er eitt sérkennilegasta fjall á Íslandi, staðsett á milli Borgarfjarðar eystri og Húsavíkur á Víknaslóðum. Það er 771 m hátt og sker sig úr umhverfinu, enda ljósleitt ásýndum með dökkum bergæðum sem liggja þvers og kurs í gegnum fjallið. Flestir bergganganna stefna að toppi fjallsins og minna á lakkrísreimar eða röndótt náttföt, enda gengur fjallið einnig undir heitinu Röndólfur. Annars merkir hvítserkur ermlaus eða ermastuttur kyrtill og eru tveir aðrir Hvítserkir á Íslandi, annar vegar drithvítur klettur í sjó við botn Húnafjarðar og hins vegar foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði. Það er sérstaklega suðurhlíð Hvítserks sem er mikið fyrir augað en efst ber meira á dekkra bergi. Fjallið er myndað úr ljósu og súru líparíti en í því er einnig flikruberg, einnig kallað ignimbrite, sem talið er að hafi myndast í miklu eldskýi við gjóskuhlaup og sprengigosi í Breiðarmerkureldstöðinni skammt frá. Í Hvítserk er gamalt berg sem gæti verið allt að  125-250 milljónir ára og því mun eldra en elstu hlutar Íslands sem hingað til hafa verið taldir 16 milljónir ára. Röndólfur gæti því verið ókrýndur öldungur í íslenskri jarðsögu.

 

Það er auðvelt að komast að rótum Hvítserks en frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra liggur jeppavegur meðfram fjallinu inn að Húsavík og áfram í Loðmundarfjörð. Auðveldast er að ganga á fjallið efst af hryggnum milli Borgafjarðar og Húsvíkur og tekur uppgangan ekki nema rúma klst. En það eru fleiri spennandi og lengri gönguleiðir sem bjóðast á þetta sérstaka fjall, t.d. upp úr Breiðuvík þar sem gengið er framhjá fjalli sem kallast  Hákarlatönn. Er þá gengið upp á Hvítserk bakdyramegin sem er ekki síður spennandi en suðurhlíðarnar. Undirlagið í Hvítserk er laust í sér, sérstaklega sunnan megin, og því mikilvægt að fara varlega og notast við göngustafi. Efst er sérlega fallegt útsýni yfir Víkur, m.a. Húsavík, Breiðuvík en líka Dyrfjöll og fjallið Skúmhött. Það getur líka verið gaman að ganga kringum Hvítserk enda bíður hans upp á sérlega fjölbreytta og litríka náttúruupplifun.

Share on facebook
Deila á Facebook