Sjóðheitt djásn beint úr ofninum

Það eru ekki margir staðir á jörðinni þar sem náttúru- djásn bókstaflega poppa upp úr jörðinni. Ísland er einn þeirra, enda eitt virkasta eldfjallasvæði jarðar. Það sann- aðist þann 19. mars 2021 þegar gos hófst í hlíðum Fagra- dalsfjalls í Geldingadölum. Það stóð í hálft ár en fram að því hafði ekki gosið á Reykjanesi í næstum 800 ár. Barst kvika til yfirborðs eftir allt að 17 km kvikugangi og út, í gegnum tvo samhliða gíga, en síðan opnuðust ný gosop norðan þeirra sem lokuðust aftur þegar mánuður var liðinn af gosinu. Eftir það barst kvika aðallega úr einum og sama gígnum, og var hraunstreymið lengst af í kringum 5-13 m3/s. Upp úr miðjum ágúst fór síðan að draga úr gosinu og eftir 18. sept. mældist ekkert hraunstreymi frá gígnum. Þremur mánuðum síðar var goslokum síðan formlega lýst yfir.

Gosið í Geldingadölum telst hvorki aflmikið né á meðal stærstu eldgosa, en var engu að síður afar til- komumikið, enda auðvelt að fylgjast með því í návígi. Gígurinn er sérlega mikið fyrir augað, en þar bregður fyrir alls konar litum, meðal annars rauðri gígskál. Á 40 metra háum gígbörmunum eru gular brennisteinsútfellingar síðan mest áberandi, en þær má rekja til heitra gosgufa, hraunið allt að 70 m þykkt næst gígnum og enn vel heitt. Í dag þekur hraunþekjan tæplega 5 ferkíló- metra, meðal annars alla Geldingadali, en hrauntungur teygja sig einnig ofan í Meradali og Nátthaga.

Þótt gosinu sé nú formlega lokið þá eru eldstöðv- arnar og umhverfi þeirra mikið fyrir augað, ekki síst gígurinn, sem þegar telst á meðal helstu djásna í krúnu Reykjanessskaga. Því er óhætt að að mæla með göngu að þessu stórkostlega náttúrufyrirbæri en göngukort af svæðinu má nálgast á www.fi.is. Forðast ber að ganga inn á sjálft hraunið eða upp að gígnum, enda ágætt útsýni að honum frá Stóra-Hrúti eða Fagradalsfjalli. Undanfarið hafa jarðhræringar aftur gert vart við sig á svæðinu, sem gætu verið undanfari goss. Því er skynsamlegt að bíða með heimsóknir í Geldingadali uns óróanum linnir og hætta á gosi óveruleg. Þessi stöðugi órói svæðisins dregur þó síst úr aðdráttarafli þess og vonandi verður það gert að friðlandi í náinni framtíð.

Share on facebook
Deila á Facebook