Bláfell er 1204 metra hár móbergsstapi á Biskupstungnaafrétti við upphaf hinnar ævafornu hálendisleiðar yfir Kjöl milli Langjökuls og Hofsjökuls. Stærstan hluta ársins er Bláfell snævi þakið og minnir á bráðinn rjómaís, en síðari hluta sumars tekur blái liturinn völdin þótt snjóskafalar séu áfram til staðar. Í íslenskum þjóðsögum segir af bergrisa sem hét Bergþór og hélt til í helli í Bláfelli ásamt konu sinni Hrefnu. Hann þótti sterkur með afbrigðum en einnig “forspár og margvís” og “gjörði mönnum ekki mein ef ekki var gjört á hlut hans.” Hrefna þótti skapstór og undi hag sínum þarna illa, sérstaklega eftir að að kristni var tekin upp í landinu en það pirraði hana að þurfa að horfa af Bláfelli yfir kristna Sunnlendinga. Samband hennar og Bergþórs endaði með risaskilnaði og flutti Hrefna búferlum norður yfir Hvítá á meðan Bergþór sat sem fastast í Bláfelli. Síðar áttu þau Hrefna eftir að hittast við silungsveiðar í Hvítárvatni, en ekki tókst henni að veiða sinn fyrrverandi heim til sín í Hrefnubúðir.
Það er auðvelt að ganga á Bláfell, en á vorin er fjallið frábært fyrir fjallaskíði, enda stutt í snjó frá veginum. Ekið er frá Gullfossi eftir bílvegi sem liggur í norður og áfram yfir Kjöl. Þegar komið er í 600 m hæð efst á Bláfellshálsi er nokkurra metra há varða sem ferðalangar yfir Kjöl hafa búið til með því að kasta steinum í hana svo lengi sem elstu menn muna. Þarna má hefja gönguna til austurs en önnur gönguleið á Bláfell liggur að norðanverðu en er seinfarnari og brattari. Einfaldari leið, ekki síst fyrir fjallaskíðafólk, er að leggja bílum aðeins neðar á Bláfellshálsinum. Þaðan er stefnt í austur upp auðfarin gil og brekkur. Brattinn eykst eftir því sem hærra dregur og til að komast á hátindinn er fylgt hrygg í norðaustur. Útsýni af toppnum er frábært, ekki síst í vestur yfir Langjökul og Jarlhettur, en í norður sjást Kerlingarfjöll vel og Hofsjökull en Suðurlandsundirlendið með Heklu og Eyjafjallajökli í suður. Á góðum degi má einnig sjá Hvannadalshnjúk í Öræfajökli en bústaður hins fráskilda Bergþórs verður ekki gefinn upp hér, enda vill hann vera látinn í friði.