Í Stafafellsfjöllum skammt frá Lónsöræfum, eru Jökulgilstindar, tignarlegir og nánast eineggja tvíburaturnar sem sjást víða að á sunnanverðum Austfjörðum. Báðir eru umkringdir jökli og í kringum 1313 metrar að hæð. Nafn sitt draga þeir af þröngu og litríku Jökulgili sem liggur norður af þeim og ofan í Flugustaðadal. Yfirleitt er gengið á vestari tindinn því sá eystri er snúinn uppgöngu. Aðallega eru tvær gönguleiðir í boði á vestari tindinn; að norðanverðu úr Flugustaðadal um Jökulgil, eða sunnan úr Lóni. Fáfarnari og lengri gönguleiðir liggja úr Lónsöræfum, t.d. frá skálanum Egilsseli.
Komist er inn Flugustaðadal eftir torfærum jeppaslóða sem víða liggur eftir afar grýttum árfarvegi. Rétt innan við gangnamannakofann Markúsarsel endar slóðinn og þar hefst gangan. Flugustaðaá er fylgt inn dalinn sem þrengist og árgljúfur taka við. Í hliðarám eru fallegir fossar og er hellisskúti á bakvið einn þeirra. Smám saman opnast Jökulgil á vinstri hönd og Tvíburarnir hvítklæddu blasa við. Stöllótt jarðlög eru þrædd upp brattann en ljósbrúnt líparít rammar inn snarbrattan skriðjökul sem steypist ofan í Jökulgilið. Með því að halda upp lausar brekkur á vinstri hönd er komist á jökulfönn og hún þveruð uns komið er að vestari tindinum norðanmegin. Skyndilega blasa Lónsöræfi við í öllu sínum veldi en líka Sauðhamarstindur, austanverður Vatnajökull og Snæfell. Síðasti spölurinn er brattur og notast við ísöxi og mannbrodda. Hnallurinn efst er þó látinn eiga sig en í staðinn horft úr skarði neðan hans yfir Lón, alla leið að Vestra Horni. Syðri leiðin upp úr Lóni er einnig tilkomumikil en brattari. Úr Austurskógum er stefnt upp brattann vestan Koltungugils. Þarna er enginn gönguslóði og þéttur skógurinn torfarinn. Fljótlega taka þó við grónir melar þar sem oft sést til hreindýra. Ofar taka við við snjófannir sem þræddar eru að skarði sem liggur á milli tindanna tveggja. Haldið er vinstra megin við vestari tindin og er síðasti hlutinn sá sami og þegar gengið er norðan úr Flugustaðadal. Ganga á Jökulgilstinda er krefjandi en ógleymanleg upplifun. Hækkun er í kringum 1200 metra og gangan 20-22 km báðar leiðir, sem tekur daginn og vel það.