Tunglganga á Trölladyngju

Á Íslandi er fjöldi tilkomumikilla dyngja en það eru aflíðandi keilulaga hraunskildir með gígopi efst. Þessi eldfjöll minna á skjöld á hvolfi og myndast við endurtekin gos þar sem þunnfljótandi hraun renna endurtekið út um hringlaga gíg. Úr lofti minna dyngjur helst á fjöll á tunglinu eða mars, ekki síst þær á gróðurvana hálendi Íslands. Þekktust íslenskra dyngja er Skjaldbreiður, en Ok, Kollóttadyngja og Trölladyngja í Ódáðahrauni setja einnig sterkan svip á landslagið. Sú síðastnefnda er með stærstu gosdyngjum landsins og nær 1459 m hæð á auðninni norðan Vatnajökuls sem er í 900 m hæð. Skammt frá Trölladyngju er Askja í Dyngjufjöllum en þangað komu amerískir Appollo-geimfarar með Neil Armstrong í fararbroddi og æfðu sig fyrir fyrstu tunglgönguna 1969. Fóru æfingarnar m.a. fram í nafnlausu gili í austanverðum Dyngjufjöllum sem fékk nafnið Nautagil og er dregið af enska orðinu astronaut.

Af tindi Trölladyngju er gríðarlegt útsýni, m.a. til norðanverðs Vatnajökuls og Bárðarbungu en einnig til Kverkfjalla, Dyngjufjalla, Herðubreiðar og Snæfells. Í vesturátt sjást síðan Tungnafellsjökull og Hofsjökull. Þetta er löng og krefjandi ganga sem tekur daginn, en fyrstur til að ganga á fjallið voru Vatnajökulsfarinn William Lord Watts og Þorlákyr Jónsson bóndi í Mývatnssveit sumarið 1875. Flestir hefja gönguna vestan Trölladyngju af Dyngjufjallaleið (F910) við svokallaða Surtluflæðu, eða að sunnanverðu af Gæsavatnaleið skammt frá Urðarhálsi. Svartur eyðimerkursandurinn er gljúpur og er gengið eftir dældóttum hraunbreiðum þar sem sérlega falleg hraunreipi gleðja augað. Þessi hraun runnu úr Trölladyngju fyrir rúmlega 7000 árum og eru hluti Ódáðahrauns, stærsta hraunflæmis á Íslandi sem þekur næstum 0,5% landsins. Þarna er lítið um kennileiti og vegurinn sést ekki eftir að komið er inn í hraunið. Því er nauðsynlegt að notast við GPS-tæki, jafnvel í góðu veðri. Einnig þarf að huga að drykkkjarvökva því þarna eru engir lækir eða uppsprettur, nema snjóskaflar efst. Gangan er 26 km fram og til baka og þar sem hallinn er aðeins nokkrar gráður tekur hún á andlega ekki síður en líkamlega. Efst bíður risastór sporöskjulaga gosgígur sem er 1200 m á lengd, 500-600 m að breidd og allt að 100 m djúpur. Tilfinningin er mögnuð og hugurinn reikar til amerísku astronautanna sem fyrir hálfri öld stóðu fyrstir manna á tunglinu.

Share on facebook
Deila á Facebook