Gáð til veðurs á Vífilsfelli

Eitt tignarlegasta fjall í nágrenni Reykjavíkur er Vífilsfell (655 m) en margir líta á það sem nyrsta hnjúk Bláfjalla. Fjallsins er getið í Landnámu þar sem sagt er frá Vífli sem ásamt Karla voru þrælar Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámsmannsins. Þeir voru sendir frá Ingólfshöfða vestur með sjó að leita öndvegissúlna Ingólfs og fundu þær loks reknar í Reykjavík. Ingólfur kættist við fundinn og segir svo í Landnámu: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum [Vífilsstöðum]; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur[áreiðanlegur] maður.“ Vífill virðist hafa verið í fantaformi því sagt er að hann hafi skotist frá Vífilsstöðum upp á Vífilsfell til að gá til veðurs og ef veðurútlit var gott hélt hann út á Gróttu og reri til fiskjar. Vífilsfell er talið hafa myndast í a.mk. tveimur gosum á mismunandi jökulskeiðum ísaldar. Langmest ber á móbergi en um mitt fjallið er stallur sem skartar blágrýti og er því talinn stapi eins og Herðubreið og Hlöðufell.  Efst á Vífilsfelli er sérlega fallegt móberg úr síðara gosinu og minnir veðrað bergið á abstrakt listaverk.

Ganga á Vífilsfell er frábær skemmtun og flestum fær. Hefðbundin gönguleið liggur að norðanverðu upp á öxl sem gengur út úr fjallinu. Þarna eru malarnámur og má leggja bílum fyrir framan þær en stikuð leið liggur alla leið upp á hátindinn. Þetta eru 6 km báðar leiðir og má reikna með að gangan taki 3-4 klst. Meira krefjandi gönguleiðir liggja að vestanverðu upp gil sunnan tindsins eða úr Jósepsdal að austanverðu. Á hefðbundnu gönguleiðinni er stíg fylgt upp á áðurnefndan stall en síðan taka við móbergsklettar sem yfirleitt eru auðveldir uppgöngu nema á veturna. Því er skynsamlegt að hafa með mannbrodda og ísöxi í vetrarferðum á Vífilsfell. Í efstu klettabeltunum eru kaðlar á tveimur stöðum sem auðvelda uppgönguna og á tindinum er útsýnisskífa sem Ferðafélag Íslands setti upp. Útsýnið yfir höfuðborgina er frábært og sést til Gróttu í 25 km fjarlægð þar sem Vífill stundaði útræði. Einnig blasa við Esja, Móskarðahnjúkar, Skjaldbreiður og Hengill. Flestir ganga sömu leið niður en sprækt göngufólk getur þrætt endilöng Bláfjöllin í suður að lyftusvæðinu, 15 km leið, sem Vífli hefði þótt þrælléttur göngutúr.

Share on facebook
Deila á Facebook