Hornstrandir draga nafn sitt af útverðinum Horni sem veit beint í norður. Austan við það er Hornbjarg og vestan þess Hornvík. Enn vestar eru Hælavík, Hlöðuvík, Fljótavík, Rekavík bak Látur og loks Aðalvík, sem er þeirra stærst. Hún er 7 km breið og liggur milli Straumnesfjalls í norðri og Ryts í suðri, en á landakorti minnir hún á gapandi gin risaeðlu. Aðalvík er tvímælalaust ein af perlum friðlandsins á Hornströndum, en þar voru fyrrum tvö sjávarþorp, Látrar og Sæból og bjuggu í þeim þegar mest var í upphafi síðustu aldar hátt í 120 og 80 manns. Síðan hnignaði byggðinni og síðustu ábúendur fluttu úr Aðalvík 1952. Ári síðar, í miðju kalda stríðinu, reistu Bandaríkjamenn flugvöll við Látra en einnig veg og járnbraut upp á Straumnesfjall. Má enn sjá leifar hernaðarmannvirkja efst á fjallinu, líkt og á fjallinu Darra sunnar í Aðalvík, sem Bretar reistu í seinna stríði. Í Aðalvík er einnig að finna gamla kirkju og sumarbústaði fólks sem á ættir sínar að rekja þangað, en áður fyrr héldu einnig til í Víkinni franskir duggarar sem leituð þar skjóls við veiðar sínar við landið.
Það er óhætt að mæla með heimsókn í Aðalvík sem bíður upp á spennandi gönguleiðir við allra hæfi. Margir kjósa að sigla beint í Aðalvík frá Ísafirði eða Bolungarvík, en einnig má fylgja fallegri gönguleið frá Hesteyri yfir Hesteyrarskarð. Ströndina prýðir víða ljós fjörusandur sem fer vel við grænt undirlendið og fjallahringinn upp af ströndinni. Við Látra er einfalt tjaldstæði þar sem tilvalið er að halda til. Auðvelt er að ganga upp á Straumnesfjall eftir gamla veginum og sést þá vel yfir Aðalvíkina og ofan í Rekavík. Lengri gönguleið liggur í suður að fjallinu Hvarfnúpi og þaðan áfram að voldugum og þverhníptum klettum fjallsins Ryts. Hægt er að ganga yfir á Hesteyri eftir hlíðum Hundamúla og ofan svokallaðs Sléttubjargs Þar er vinalegt tjaldstæði en í Gamla læknishúsinu er veitingasala á sumrin en þar ku einnig vera drauga- gangur. Frá Hesteyri má síðan halda aftur sjóleiðina yfir Ísafjarðardjúp eða loka hringnum með því að ganga yfir í Aðalvík og sigla þaðan með bát til Ísa- fjarðar eða Bolungarvíkur.