Gullið svarta

Náttúruauðlindir eru ýmis konar en málmar, kol og olía koma oft upp í hugann. Norðmenn kalla olíu Svarta gullið, sem jafnframt er titill á einni Tinnabókanna, ,en þar snýr Tinni á glæpamenn sem ásælast eyðimerkurolíu. Þótt útflutningur á svörtum virkri sem byggingarefni hafi verið reyndur hér á landi telst hann varla dýrmæt auðlind, líkt og jarðhiti, vatnsorka og einstakar náttúrperlur. Ósnortin náttúra aflar okkur ekki aðeins mikilvægra tekna heldur er hún líkt og tungumálið órjúfanlegur hluti af þjóðernisvitund okkar. Í Bárðardal er sérlega falleg lindá, Svartá, sem með réttu má kalla svart gull. Hún á upptök í Svartárvatni, en neðar rennur í hana blátær Suðurá frá Suðurárbotnum. Síðan renna þær sameinaðar sem Svartá norður í jökullitað Skjálfandafljót. Lífríki þessar risastóru lindáa er einstakt en í þeim þrífst ekki aðeins einangraður stofn urriða heldur er einnig mikið fuglalíf. Straumönd sést víða en einnig húsönd sem annars er sjaldséð utan  Mývatns og Laxár í Aðaldal. Svartá og Suðurá minna einmitt á Laxá og eru eins og hún vinsælar veiðiár. Þar ræður miklu óvenjustór urriðinn sem tilheyrir einstökum einangruðum stofni og þekkja má á túrkisbláum bletti aftan við augað. Gróskumikið umhverfið spillir heldur ekki fyrir og gaman að ganga meðfram ánni beggja vegna, t.d. frá brúnni yfir í Stórutungu. 

Ganga má fram á Hamarinn yfir Svartárgil og jafnvel alla leið að Svartárvatni. Ekki þarf heppni til að sjá endur synda um í straumþungu vatninu milli árhólma við undirleik mófugla sem halda til við bakkana. Í fjarska sést i Dyngjufjöll og Trölladyngju austan Sprengisands. En það eru svört ský sem ógna Svartá og umhverfi hennar. Svartárvirkjun er á teikniborðinu en með því að stífla ána verður uppeldisstöðvum einstaks stofns urriða rústað og tilvist húsandarstofnsins í ánni ógnað. Auk þess munu virkjanamannvirki minnka aðdráttarafl gönguleiða. Þetta er ekki fyrsta aðförin að þessum fallegu ám því á áttunda áratugnum stóð til að veita þeim með skurðum í Mývatn sem nýta átti sem miðlunarlón fyrir virkjanir í Laxá. Fyrir frækna baráttu þingeyskra bænda voru þau áform stöðvuð og stífla í ofanverðri Laxá sprengd í skjóli nætur. Í dag þætti algjör firra að breyta Mývatni í miðlunarlón, enda náttúruperla á heimsmælikvarða. Enn er hægt að bjarga Svartá frá fallöxi virkjunar, enda óskynsamlegt að kveikja i tunnu fullri af svörtu gulli – og það þegar ofgnótt er af rafmagni.

Share on facebook
Deila á Facebook