Landmannalaugar eru einn vinsælasti ferðamannastaðurinn á hálendi Íslands og býr yfir miklum jarðhita. Hann fóðrar vinsælar náttúrulaugar sem svæðið er kennt við. Torfajökulssvæðið, sem Landmannalaugar eru hluti af, er reyndar stærsta og öflugasta háhitasvæði landsins. Fyrir tæpri hálfri öld kom því alvarlega til tals að reisa þarna jarðhitavirkjun og framleiða rafmagn fyrir stóriðju. Því stórslysi var sem betur fer afstýrt, og í staðinn var Torfajökulssvæðið allt friðað árið 1975, enda svæðið einstakt á heimsvísu og eitt helsta djásn íslenskrar náttúru.
Þótt náttúrulaugarnar hafi mikið aðdráttarafl, þá á það ekki síður við um kynngimagnað umhverfið. Litríkt líparít er í aðalhlutverki, þar sem mest ber á ljósbrúnum hryggjum og skorningum sem í blandast rauð og græn litbrigði. Hnausþykkt Laugahraun skartar síðan biksvartri en glansandi hrafntinnu. Að virða fyrir sér slíkt útsýni úr 40 gráðu heitri laug er ólýsanleg tilfinning, ekki síst á björtu sumarkvöldi. Fyrir baðið mælum við þó með göngu í þessu undraverki náttúrunnar. Það má gera með 2-4 daga göngu úr Þórsmörk í Landmanna- laugar, stundum kölluð „öfugur Laugavegur“. Tilvalið er að gista í upphituðum skála Ferðafélags Íslands frá 1969. Úr Laugum má einnig ganga Skallahring, með frábæru útsýni yfir Jökulgil og Landmannalaugar. Með því að bæta Grænahrygg við teygir Skallahringsganga sig auðveldlega fram á kvöld, sem er lítið mál í slíkri náttúrufegurð. Styttri ganga liggur yfir Námshraun að Frostastaðavatni eða upp á Bláhnjúk (945 m) sem er frábært útsýnisfjall. Fáfarnari en ekki síður spennandi gönguleið er að ganga á einkar litríkan Barm, en hann blasir við þeim sem koma í Landmannalaugar handan Jökulgilskvíslarinnar. Er þá gengið (eða ekið) frá tjaldstæðinu eftir veginum með fram Jökulgilskvíslinni og komist yfir hana á brú austan við Norðurnámshraun. Jökulgilskvíslinni er aftur fylgt, en nú í suður, að rótum vestari hluta Barms sem kallast Norðurbarmur. Brekkurnar geta verið lausar í sér neðst en síðan tekur við hryggur efst sem hægt er að þræða sig eftir að hæsta tindinum sem er 757 m hár. Sprækt göngufólk getur síðan haldið áfram að Austurbarmi, sem er 170 m hærri en Norðurbarmur, og síðan haldið sömu leið til baka. Útsýnið á báðum þessum tindum er einstakt og tilfinningin sennilega ekki ósvipuð því að vera fluga á barmi olíumálverks.