Horn sem er skeytin inn

Hornvík er með stórkostlegustu stöðum á Íslandi, enda hjarta Hornstranda. Hún er kennd við Horn, þverhnípt klettanes sem skagar í norður líkt og Hælavíkurbjarg vestan hennar. Þarna er eitt stærsta fuglabjarg landsins þar sem milljónir fugla halda til á sumrin, einkum langvía, álka, lundi og stuttnefja en einnig rita og fýll. Enda þótt Hornvík snúi beint í norður, og oft sé stutt í hafís, þá er gróður þarna ótrúlega gróskumikill. Það gerir fugladritið auk þess sem ekkert sauðfé er í Friðlandinu. Í staðinn gleðja ferðamenn sérlega gæfir refir. Fram undir miðja síðustu öld var búið á nokkrum bæjum í Hornvík, m.a. Höfn og Horni. Hefðbundinn búskapur var stundaður við erfiðar aðstæður en veiðar í sjó og ám voru mikil búbót líkt og bjargfugl og egg sem sigið var eftir. Loks var hvönn soðin með mjólk til matar og reki nýttur sem eldiviður og til bygginga.

Frá Ísafirði, Bolungarvík og Norðurfirði á Ströndum er boðið upp á bátsferðir beint í Hornvík, en einnig má komast þangað gangandi með allt á bakinu, t.d. frá Hesteyri eða úr Reykjafirði nyrðri. Halda má til á tjaldstæði við eyðibýlið Höfn og leggja í ýmsar dagsferðir þaðan. Annar kostur er skáli Ferðafélags Íslands á Hornbjargsvita en þá þá þarf að ganga yfir Kýrskarð í Hornvík. Allir ættu að ganga út á Hornbjarg en slíka dagsferð má sameina heimsókn í Hornbjargsvita. Frá Höfn er gengið að Kýrá, hún vaðin og síðan haldið undir Klifi að bænum Horni. Þaðan er stutt ganga út af Hornbjargi. Á bjargbrúninni er lagst á magann og starað niður í brimið sem lemur bjargið nokkur hundruð metrum neðar. Fuglagargið yfirgnæfir flest samtöl og fuglar þjóta hjá eins og orrustþotur. Ótrúlegt nokk var sigið þarna eftir eggjum. Frá Hornbjargi er haldið í austurátt að þumallaga tindi sem heitir Jörundur. Hann telst einn Kálfatinda en sá hæsti er skammt undan og nær 540 hæð. Þeir sem ekki eru lofthræddir ættu að ganga upp á hann því efst er gríðarlegt úsýni yfir Húnaflóa, Hornvík og norðurhluta Hornstranda. Á leiðinni heim er haldið að Almenningsskarði og má velja styttri leið beint aftur ofan í Hornvík eða halda austan Dögunarfells að Hornbjargsvita. 

Share on facebook
Deila á Facebook