Öræfajökull er eitt stærsta virkra eldfjall í Evrópu og hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma, 1362 og 1727. Þessi risastóri gígur er fylltur jökulís sem er allt að 550 m þykkur og svellkaldur bíður næsta goss. Á barmi rúmlega 5 km breiðrar öskjunnar raða sér flestir hæstu tindar landsins. Þar er hæstur Hvannadalshnjúkur (2210 m) í vestri en í norður þriðji hæsti tindur landsins Snæbreið (2041 m) og Sveintindur (2044 m), sá næsthæsti. Skammt undan systir hans Sveinsgnípa (1925 m) en Eystri (1758 m) og Vestari Hnappur (1849 m) við suðasturhluta öskjunnar og Rótarfjallshnjúkur (1848 m) beint í suður. Tilkomummesti tindurinn á öskjubarminum er þó Dyrhamar (1917 m), skamtt suðvestur af Hnjúknum. Nafnið er viðeigandi því snarbrattir hamrar einkenna hann og eru klofnir í tvennt af risadyrum sem sjást víða að. Dyrhamar er tilkomumestur á veturna og vorin þegar svartir klettarnir eru þaktir klakabrynju frá toppi til táar. Þá minnir sá Efri óneitanlega á hvíta nashyrningstönn, en hvíti nashyrningurinn (Ceratotherium simum) er líkt og Dyrhamar afar sjaldséður og mun fágætari en svarti nashyrningurinn sem einnig á heimkynni í Afríku. Þetta eru grasbítar sem geta vegið allt að 2,3 tonn og þykja ekki sérlega spakir, frekar en Dyrhamar sem er snúinn uppgöngu. Það er þó tvímælalaust hægt að mæla með göngu á Dyrhamar og einstök tilfinning að standa á þeim Efri með útsýni yfir landið og miðin.
Algengast er að komast að Dyrhamri með því að fylgja Sandfellsleið áleiðis að Hvannadalshnjúk en síðan sveigt til vinstri þegar komið er framhjá risastórum og sveigðum sprungum Virkisjökuls. Loks er komið að fallegri egg sem leiðir að rúmlega 100 m háum ísvegg nashyrningstannarinnar. Þarna verður að notast við snjóakkeri, mannbrodda, ísaxir og öryggislínur. Efst er stórkostlegt útsýni yfir Hrútfjallstinda (1875 m), Virkisjökul og Sveinstind með öskju Öræfajökuls í forgrunni. Athyglinni stela þó Hvannadalshnúkur og vestur af honum Tindaborgin sem oft er kölluð Kirkjan (1740 m). Í góðu skyggni alla leið til Kverkfjalla (1920 m) 70 km norðar. Önnur krefjandi gönguleið á Dyrhamar liggur upp sprunginn Virkisjökul austan megin Hamarsins, en einnig er hægt við bestu aðstæður að ganga upp vestan megin Hamarsins eftir Hvannadal eða af Svínafellsjökli. Niður verður Sandfellsleiðin oftast fyrir valinu, a.mk. fyrir fjallaskíðafólk, enda 15 km brekka niður að bílastæði við bestu aðstæður. Er þá skíðað niður Dauðabrekkuna sem er með lengstu fjalllaskíðabrekkum á Íslandi – og þótt víða sé leitað.