Kristínartindar

Íslensk fjöll bera sum mannanöfn og koma nöfn karla þar mun oftar fyrir en nöfn kvenna. Kvenörnefnin eru þó ekki síður falleg og tindarnir mikilfenglegir líkt og fjallið Gunnhildur í Loðmundarfirði. Sama á við um Kristínartinda í Öræfasveit sem teljast til gersema Skaftafellsþjóðgarðs. Saga ein tengist nafngift Kristínar- tinda en jökulhlaup átti að hafa herjað Öræfi og allir Öræfingar farist í hlaupinu nema kona ein, sem Kristín hét, og kleif hún tindana sem síðan bera nafn hennar.Kristínartindar raða sér í hálfhring utan um gamlan gíg sem opnast til vesturs efst á Skaftafellsheiði. Má þræða suma þeirra upp á hæsta tindinn sem er 1126 metra hár. Af honum býðst einstakt útsýni yfir stóran hluta Skaftafellsþjóðgarðs sem árið 2008 varð hluti af einum stærsta þjóðgarði Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarði. Ofan af Kristínartindum er fantagott útsýni yfir að Kjós, Mið- fellstindi og Þumli. Einnig sést Morsárjökull steypast fleiri hundruð metra ofan í ljósgráan Morsárdal, en um sama þverhnípi falla hæstu fossar landins sem enn hafa ekki formlega fengið nafn. Beint í norður rís tignar- legur Skarðatindur (1385 m) og að honum ókleif egg úr suðri með þverhnípi til beggja hliða. Á efsta Kristínar- tindinum verður því að fara varlega og ekki leggja á tindinn í lélegu skyggni. Til austurs sést yfir Skaftafells- jökul, Hrútfjallstindana fjóra, Efri Dyrhamar og sjálfan Hvannadalsjökul. Í suðurátt opnast síðan víðáttumikill og svartur Skeiðarársandur sem er í fullkominni and- stæðu við iðagræna Skaftafellsheiði.

Það er óhætt að mæla með göngu á Kristínartinda sem tekur 6-7 klst. Besta útsýnið fæst af efsta tindinum en einnig má láta einhvern af lægri tindunum duga. Best er að leggja upp frá þjónustumiðstðinni í Skaftafelli og er stefnan tekin á Sjónarnípu um Hrútagil. Þar fæst ógleymanlegt útsýni yfir 15 km langan Skaftfafellsjökul, sem þó hefur hopað töluvert sl. áratugi vegna loftslags- hlýnunar. Komið er að suðausturhliðum Kristínartinda og göngustíg fylgt upp lausar hlíðar þeirra að einstigi sem klöngrast má upp á efsta tindinn. Á leiðinni heim er tilvalið að halda til vesturs á Skaftafellsheiði að stór- kostlegum útsýnisstað sem kallast Skorarbrýr. Þaðan er gengið suður að Skerhóli, áfram að Sjónarskeri og eftir Eystragili að stuðlabergsskreytum Svartafossi. Þar er gott að kasta mæðinni og jafnvel skella sér í fótabað, en frá fossinum er aðeins hálftíma ganga að þjónustumið- stöðinni í Skaftafelli.■

Share on facebook
Deila á Facebook