Lán í lóni

Hólmsárlón er með fallegri stöðuvötnum á Íslandi og er það skammt suðaustan Torfajökuls.  Það er einkum blágrár liturinn sem fangar athyglina á þessu ílanga jökullóni, sem einnig er heillandi andstæða við rauðleitt gjallið og mosavaxin fjöllin í kring. Hólmsárlón hefur þá sérstöðu að vera ósnortin smíð náttúrunnar, ólíkt manngerðum lónum eins og t.d. Blöndulóni og Hálsalóni við Kárahnjúka sem hafa orðið til við uppbyggingu vatnsaflsvirkjana. Í samanburði við þau er Hólmsárlón lítið, eða 4,1 km2. Það felur sig skemmtilega á milli fjalla og því verður að ganga að vatninu til að sjá fegurðina. Lónið er því hulinn gimsteinn sem fæstir vita af og enn færri hafa heimsótt. Orkufyrirtæki litu hýru auga til Hólmsárlóns í byrjun þessarar aldar og vildu reisa stíflu við suðurenda þess. Þannig átti að stækka vatnið og nýta sem uppistöðulón fyrir vatnsaflsvirkjun. Ekkert varð af þeim áformum, enda hefði virkjun á einstakri náttúrperlu sem þessari verið stórslys líkt og hugmyndin að veita jökulvatni úr Skaftá í Langasjó og nýta það fagurbláa og heimsþekkta vatn sem uppistöðulón. Enn renna menn þó hýru auga til virkjunar í neðanverðri Hólmsá en þar eru tveir sérlega fallegir fossar, Hólmsárfoss og Axlarfoss, í afar sérstöku umhverfi sem myndi raskast við  slíka framkvæmd.

Það er hægt að ganga að Hólmsárlóni úr nokkrum áttum. Ein leið liggur vestan úr Strútsskála og er þá gengið frá fjallinu Strút og áfram inn að Strútslaug við norðurenda Hólmsárlóns þar sem sést vel yfir lónið. Þetta er ágætis dagsganga með lítilli hækkun og tilvalið að skola af sér ferðarykið í heitri lauginni. Fyrir þá sem vilja lengri göngu þá má leggja upp frá Landmannalaugum og ganga þaðan í Jökulgil og upp í gegnum magnaða Muggudali að Strútslaug. Þar má slá upp tjaldi við snotran foss og ganga síðan meðfram Hólmsárlóni  daginn eftir, eða í kringum það en þá verður að vaða Hólmsá sem getur verið vatnsmikil. Flestir ganga þó að Hólmsárlóni af Fjallabaksleið syðri, austan megin Hólmsár. Haldið er upp með ánni sem er fjölmörgum fossum prýdd. Skammt frá útrennsli Hólmsár úr Hólmsárlóni er helsta náttúrperla svæðisins, Rauðibotn, sem er á stærð við íþróttaleikvang og hluti af Eldgjá. Hefði Hólmsárlón verði stíflað fyrir kílówattstundir væri umhverfi Rauðabotns með fossaröðunum eyðilagt. Í staðinn verður þetta svæði uppspretta óteljandi unaðsstunda komandi kynslóða. Stundum getur ólán orðið að láni – það sannast í Hólmsárlóni.

Share on facebook
Deila á Facebook