Að Fjallabaki er fjöldi náttúruperlna sem eru mörgum lítt kunnar. Það kemur á óvart því þær eru steinsnar frá fjölförnum viðkomustöðum eins og Landmannalaugum og Laugaveginum, einhverri frægustu gönguleið í heimi. Sumir þessara staða eru í felum og erfitt að komast að þeim nema gangandi. Þetta á þó ekki við um ljósbrúnt Laufafell og snoturt vatn, Laufavatn, sem liggur við rætur þess og meðfram mosavöxnu Laufahrauni. Laufafell sést víða af vestanverðu Fjallabaki, enda 1164 m hátt. Þetta er dæmigerður stapi girtur hamrabelti efst, líkt og Herðubreið og Hlöðufell, og að mestu leyti úr líparíti eins og svo mörg fjöll á Torfajökulssvæðinu. Talið er að Laufahraun hafi runnið eftir landnám en nokkrir gíganna sem það rann úr eru fylltir vatni og kallast Grænavatn.
Tiltölulega auðvelt er að komast að Laufafelli á fjórhjóladrifnum bílum. Stefnan er tekin á vistlegan skála Útivistar sem heitir Dalakofi og stendur í 750 m hæð rétt norðan fjallsins og er hann hitaður upp með jarðhita. Hægt er að velja um nokkrar leiðir í Dalakofann, m.a. tvær af Fjallabaksleið nyrðri eða að sunnanverðu af Fjallabaksleið syðri. Hægt er að hefja gönguna frá skálanum eða aka að rótum fjallsins vestan megin. Þar liggur helsta gönguleiðin upp lausar skriður en suður- og austurhlíðar fjallsins henta alls ekki til uppgöngu. Af tindinum er frábært útsýni yfir að Hrafntinnusker og miðhluta Laugavegarins en einnig Reykjadali sem státa af óteljandi gufuhverum í sundurskornum ljósum giljum. Í suðri blasa Tindfjöllin við og í vestri Rauðfossafjöll og sjálf Hekla. En það er Laufaþrennan sem á athyglina skilið enda bjóða fell, vatn og hraun upp á einstakt litaspil.
Fyrir þá sem ekki eru spenntir fyrir fjallgöngu er tilvalið að ganga í kringum Laufafell. Frá Dalakofa er gengið í austur og Markárfljótinu fylgt norðan við Laufafellið. Þarna má sjá tilkomumikinn en nafnlausan foss í Fljótinu, eins og bændur kalla Markárfljótið á þessum slóðum. Haldið er áfram meðfram fjallinu í litla gróðurvin austan þess sem kallast Hvannstóð. Eftir það tekur Laufahraunið við með Laufavatni og fjölda annarra tjarna sem sum fela sig í smágígum. Þetta er tæplega 15 km ganga úr Dalakofa og tekur daginn en er mest á jafnsléttu. Tilvalið er að gista í Dalakofa og skoða fleiri náttúrperlur í sömu ferð, t.d. Rauðfossafjöll og Reykjadali. Svæðið hentar einnig sérlega vel fyrir fjallahjól og hestaferðir.