Að Fjallabaki er fjöldi náttúruperlna sem eru mörgum lítt kunnar. Engu að síður eru margar steinsnar frá fjölförnum viðkomustöðum eins og Landmannalaugum og Laugaveginum, einhverri frægustu gönguleið í heimi. Sumir þessara staða eru í felum og erfitt að komast að þeim nema gangandi

Þrennan

Þetta á þó ekki við um ljósbrúnt Laufafell og  Laufavatn,  snoturt vatn sem liggur við rætur þess og meðfram mosavöxnu Laufahrauni

Laufadrottning

Laufafell sést víða af vestanverðu Fjallabaki, enda 1.164 m hátt. Þetta er dæmigerður stapi með hamrabelti efst, líkt og Herðubreið og Hlöðufell, og að mestu leyti úr líparíti eins og svo mörg fjöll á Torfajökulssvæðinu

 

Ás í litaspili

Laufavatn er sannkallaður ás og bæði vatnið og umhverfið mikið litaspil

 

Snoturt hraun

Talið er að Laufahraun hafi runnið eftir landnám en nokkrir gíganna sem það rann úr eru fylltir vatni og kallast Grænavatn

 

Abstrakt listaverk

Mosavaxið Laufahraun er einstakt, ekki síst séð úr lofti

 

magnað Útsýni

Gengið er upp á Laufafell vestan megin. Af tindinum er frábært útsýni yfir að Hrafntinnuskeri og miðhluta Laugavegarins, en einnig Reykjadali sem státa af óteljandi gufuhverum í sundurskornum ljósum giljum. Í suðri blasa Mýrdalsjökull og  Tindfjöllin við, og í vestri Rauðfossafjöll og sjálf Hekla

 

Falið hjarta

Við nánari skoðun má sjá í hlíðum Laufafells Hjarta Landsins vel falið í íslenskri mósaík

Dalakofi bíður

Tiltölulega auðvelt er að komast að Laufafelli á fjórhjóladrifnum bílum. Stefnan er tekin á vistlegan skála Útivistar sem heitir Dalakofi. Hann stendur í 750 m hæð rétt norðan fjallsins og er hann hitaður upp með jarðhita. Hægt er að velja um nokkrar leiðir í Dalakofann, m.a. tvær af Fjallabaksleið nyrðri eða að sunnanverðu af Fjallabaksleið syðri

 

Einstakt litaspil

Laufaþrennan að Fjallabaki svíkur engan og er svæði sem allir ættu að heimsækja