Tvílitahylur í töfraskógi

Núpsstaðaskógur er með fegurstu stöðum á Íslandi en hann felur sig í krika milli Skeiðarársjökuls og fjalls skammt frá Lómagnúpi sem heitir Björninn. Þarna vex sérlega fallegur birkiskógur sem teygir sig í suðri frá hlíðum Eystrafjalls norður meðfram stórbrotnu árgili Núpsár og langleiðina að heiðum sunnan Grænalóns. Þarna var skógur nýttur á fyrri tíð og villifé beitt allan ársins hring á 19. öld. Nú gengur ekkert fé í Núpsstaðaskógi sem þykir lítt snortinn fyrir íslenskan skóg því aðfluttum trjám hefur ekki verið plantað í hann. Í þessum töfraskógi og á sléttum eyrum sunnan hans við ársorfin gil er sérlega fallegur gróður þar sem m.a. bregður fyrir eyrarrós og gullmuru. Þarna eru einhver fallegustu náttúrulegu tjaldstæði landsins og skarta sum þeirra snotrum fossum sem nota má til sturtubaða.

Þótt gaman sé að gista í tjaldo í Núpsstaðaskógi þá má einnig heimsækja hann í langri dagsferð, enda í dag hægt að komast þangað án þess að fara yfir straumharðar jökulár. Í staðinn er þræddur jeppaslóði af þjóðveginum inn í Skógana sem opnaðist eftir að Súla breytti farvegi sínum í Gígjukvísl í stað Núpsár. Því þarf ekki að fara yfir sameinaða Núpsá og Súlu en sú straumharða jökulá kallaðist Núpsvötn.  Frá bílastæði á eyrunum er gengið í birkivöxnum hlíðum meðfram krókóttri Núpsá. Smám saman blasa við klettótt Fremra og Innra Meingil og enn innar Klifið, 10 m þverhnípt bergstál. Þar verður að fikra sig upp grófa stálkeðju sem fest hefur verið í bergið til að auðvelda uppgöngu. Þegar upp er komið blasir við stórkostlegt útsýni yfir Núpsstaðaskóg og eyrarnar sunnan hans. Skammt frá er Tvílitahylur, þar sem blátær Hvítá og jökullituð Núpsá steypast ofan í sameiginlegan hyl, og haldast litir vatnsins merkilega aðskildir. Kjarnmikill skógur myndar umgjörðina um þessa tilkomumiklu fossa og upp af þeim blasa við hrikaleg Núpsárgljúfur. Sprækt göngufólk ætti að halda áfram göngunni meðfram gljúfrinu, upp í gegnum Skessutorfugljúfur að heiðunum sunnan Grænalóns. Þar býðst stórkostlegt útsýni yfir Skeiðarárjökul að Skaftafellsfjöllum, Hrútfjallstindum og Öræfajökli. Á leiðinni heim má halda niður í Súlnadal og upp úr honum á Súlutinda en af syðsta tindinum er einstakt útsýni yfir Skeiðarárjökul og Skeiðarársand. Af Súlutindum er síðan haldið niður Sniðabrekkur að tjaldstæðinu þar sem svalandi fossasturta bíður.

Share on facebook
Deila á Facebook