Herðubreið hefur löngum þótt eitt fegursta fjall á Íslandi enda jafnan nefnd Drottning íslenskra fjalla. Ganga á Herðubreið er krefjandi en fá fjöll er skemmtilegra að klífa, enda stórkostlegt útsýni af toppnum. Færri vita að á toppi Herðubreiðar er snotur gígur — hálffylltur vatni og ísjökum

Glæsileg úr austri

Herðubreið sést víða af öræfunum norðan Vatnajökuls, rétt austan við Kollóttadyngju. Hún er glæsileg ásýndar úr öllum áttum, en mörgum þykir hún glæsilegust séð úr austri

Torfær jeppaslóði

Komist er að Herðubreið með því að aka 60 km jeppaveg (F910) suður frá hringveginum að Herðubreiðarlindum, norðaustan fjallsins. Þar má gista í Þorsteinsskála eða á tjaldstæði við bakka Lindár sem skarta eyrarrós.  Einnig er hægt að aka áfram 40 km að Drekagili við rætur Dyngjufjalla og gista þar í skála eða slá upp tjaldi, þótt enginn sé gróðurinn.  Til að komast að uppgöngustaðnum er ekinn 11 km torfær, en tilkomumikill jeppaslóði að bílastæði vestan fjallsins

Brattar skriður

Gönguleiðin liggur upp vestuhlíðar Herðubreiðar. Aðeins er um þennan eina uppgöngustað að ræða, sem er utan alfaraleiðar við austurjaðar Ódáðahrauns.

Flest vant göngufólk ætti að ráða við þessa 5-6 klst skemmtilegu fjallgöngu. Klettabelti er þó aðeins snúið og ekki fyrir lofthrædda. Því er mikilvægt að staðkunnugur sé með í för

 

Klettabeltið

Fyrst liggur leiðin upp auðgegnar lausar skriður uns komið er í 1000 metra hæð. Þar tekur klettabelti við og brattinn eykst.  Þarna þarf hjálm, mannbrodda og ísöxi, enda er efsti hlutinn yfirleitt genginn á snjó.  Neðst í klettabeltinu er járnkeðja og er það þrætt áfram upp uns komið er í snjóbrekku vinstra megin

Á brúninni

Ofar er sveigt áfram til vinstri (norðurs) og þaðan upp á brún fjallsins.  Þar er lítil varða, sem reyndar sést illa neðar úr fjallinu en er ágætis viðmið til að finna aftur leiðina niður

 

gengið að gígnum

Hér tekur við stórgrýti sem auðvelt er að stikla upp að rótum hátindsins. 

Abstrakt listaverk

Þar sést ofan í stórkostlegan gíg sem síðsumars er skreyttur íshellu sem flýtur á blágrænu leysingavatni

Hátindur í 1682 m

Hæsti tindur Herðubreiðar liggur í kanti gígsins og af honum er mjög víðsýnt 

 

Geggjað útsýni

Af toppnum sést til Snæfells, Kverkfjalla, Holuhrauns og Dyngjufjalla. Beint í norður sést í Herðubreiðatögl og vestar Trölladyngju, Kollóttadyngju og Bræðrafell.

Sama leið niður

Mikilvægt er að ganga niður nákvæmlega sömu leið og farin var upp, enda aðeins ein gönguleið í boði. Á Herðubreið er sérlega þokugjarnt og getur verið erfitt að finna niðurleiðina. Því verður að hafa með GPS-staðsetningartæki og ekki leggja á fjallið í tvísýnu veðri

 

Kennslustund í jarðfræði

Göngu á Herðubreið má líkja við kennslustund í jarðfræði, en á leiðinni sjást helstu skrefin í myndun fjallsins. Herðubreið er eldstöð sem teljast til stapa, en þeir verða til við gos undir jökli. Talið er að gosið hafi undir ísaldarjöklinum fyrir um 10-11 milljónum ára og fjallið hafi orðið til í einu gosi. Fyrst myndast fjall undir ísbreiðunni sem myndar sökkull stapans. Þegar kvikan nær undir yfirborð jökulsins kemst hún í snertingu við kalt bræðsluvatn. Þá getur myndast svokallað bólstraberg í vatninu eða kvikan tæst í gjóskusprengingum og orðið að gosösku sem síðan harðnar og breytist í móberg. Þessi jarðlög eru einkennandi fyrir klettabelti fjallsins sem sjást fyrst í u.þ.b. 1000 metra hæð.  Þegar gosið nær í gegnum jökulilnn renna hraun úr gosopinu og mynda hörðu jarðlögin efst. Það var íslenskur jarðfræðingur, Guðmundur Kjartansson, sem fyrstur lýsti tilurð stapa árið 1943, sem kölluð hefur verið stapakenningin.