Dranga­skörð eru út­vörður nyrsta hluta Stranda á Vest­fjörðum og af mörgum talin ein stór­kost­legasta náttúru­smíð á Ís­landi. Þetta eru fimm eða sjö strýtur sem ganga fram af Skarða­fjalli, rétt sunnan við frið­landið á Horn­ströndum

miðnætursól

Flestir hafa séð Skörðin af veginum út í Ingólfsfjörð, en það er stórkostleg sýn, sérstaklega í miðnætursól

risaeðlutennur

Drangarnir, sem helst minna á tennur í risaeðlu, eru gerðir úr bergstöflum sem jöklar og vatn hafa sorfið til

 

Drangar

Mörg örnefni vísa til þeirra eins og jörðin Drangar í norðvestri, Drangavík í suðri og sjálfur Drangajökull í vestri

Krúttlegt þorp

Oftast er siglt að Drangaskörðum frá Norðurfirði.  Þar er skáli Ferðafélags Íslands en einnig frábært tjaldstæði. Skammt frá er Krossneslaug og ofan frystihússins er spennandi veitingastaður með sprikklandi sjávarfang

Stórkostleg sýn af sjó

 

ekki síst að kvöldlagi

 

 

Einstakt tjaldstæði

Helsta gönguleiðin hefst við Hvalárfossa í Ófeigsfirði „þar sem vegurinn endar“. Á 25 kílómetra langri leiðinni má virða fyrir sér fossaröðina í Eyvindarfirði og jafnvel slá þar upp tjöldum. Í Drangavík býðst sérlega fallegt útsýni til Drangaskarða og þar sem hægt er að tjalda innan um gamlar bæjarrústir en byggð lagðist þarna af á fimmta áratug síðustu aldar

Signýjargata

Þegar komið er að Skörðunum er mikilvægt að gefa sér góðan tíma og þræða eitt þeirra. Flestir velja ysta skarðið, Signýjargötu, en enn tilkomumeira er að þræða svokallað Kálfsskarð á milli tvískiptu tindanna tveggja. Brekkan sunnanmegin er þó brött og ekki fyrir lofthrædda, en þeim sömu býðst að ganga fyrir ysta drangann, Litlatind. Gróður efst í Drangaskörðum er afar fjölskrúðugur sem þakka má driti sjófugla sem halda til í snarbröttum klettunum

 

skörðin

Úr Skörðunum sést norður á Hornbjarg

skörðin þrædd

Það er ógleymanlegt að sjá Drangaskörð í návígi en það verður aðeins gert með bát eða gangandi. Reyndar flaug Ómar Ragnarsson í gegnum eitt skarðið í frægum Stikluþætti, en ekki er mælt með því að leika það eftir

 

þjóðargersemi

Tilvalið er að leggjast á bakið efst í skörðunum og fylgjast með fuglum þjóta hjá. Þess má geta að Drangaskörð hafa verið klifin af Hjálparsveitarskátum.  Nýlega lýstu landeigendur Dranga yfir áhuga á því að friðlýsa Drangaskörð og nágrenni þeirra – sem vonandi verður að veruleika, enda þjóðargersemi