Kverkfjöll er óvenju tignarlegur fjallgarður í norðurhluta Vatnajökuls sem jafnframt skartar einu stærsta háhitasvæði landsins. Þau draga nafn sitt af hömrum girtri Kverkinni sem klýfur fjallabálkinn í Austurfjöll og Vesturfjöll. Hæsti tindurinn er í Austurfjöllum, 1920 m hár og heitir Skarphéðinstindur en Vesturfjöllin ná hæst í 1860 m hæð

Stórkostleg ganga

Ganga upp Vesturfjöll Kverkfjalla að Efri-Hveradal  er krefjandi ganga sem tekur 10-12 klst. og er aðeins á færi vans göngufólks. Skemmtilegast er að ganga á mannbroddum yfir Kverkjökul að svokölluðu Völundarhúsi

 

Eldur og Ís

Kverkfjöll er virk eldstöð og þriðja stærsta megineldstöðin á Íslandi á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu.  Þarna mætast eldur og ís með áberandi hætti en þessir náttúrlegu kraftar móta síbreytilegt umhverfið og gera Kverkfjöll að einstakri náttúrperlu

Langafönn

Þar er gengið á snjó en eins og nafnið gefur til kynna er Fönnin löng og reynist því mörgum erfið.  Útsýnið er samt frábært, m.a. að Snæfelli, Herðubreið og Dyngjufjöllum 

Tunnusker

Eftir nokkurra klst. göngu er komið að litlum skála Jöklarannsóknarfélagsins sem staðsettur er á svokölluðu Tunnuskeri, milli tveggja sigkatla í jöklinum. Þar er tilvalið að kasta mæðinni, borða nesti og skrifa í gestabók

 

Gengissig

Við Tunnusker sést ofan í Gengissig sem talið er hafa myndast við jarðhræringar 1959 og hefur ekkert með brokkgengt gengi íslensku krónunnar að gera. Lónið er þó síbreytilegt og tæmist reglulega með vatnavöxtum í nálægum jökulám, m.a. í Volgu

 

Hveradalur opnast

Þaðan er haldið í vestur upp á nálægan hrygg þar sem sést ofan í Efri-Hveradal, en hann er eitt stærsta háhitasvæði á Íslandi og liggur i 1700m hæð. Útsýnið er engu líkt en auk Galtárlóns má í fjarska sjá Bárðarbungu, Dyngjujökul, Kistufell, Trölladyngju, Dyngjufjöll og sjálfa Herðubreið.

Farið ofan í suðupottinn

Þeir sem ekki eru lofthræddir og eiga orku aflögu ættu að skella sér ofan í Efri Hveradal og njóta dýrðarinnar í návígi. Fyrri hluta sumars er hægt að komast brattasta hlutann á snjó en ómerkt leiðin er leirborin og sleip og því ágætt að taka með sér göngustafi og jafnvel ísöxi 

 

Drottningin blasir við

Útsýnið er engu líkt en auk Galtárlóns má í fjarska sjá Bárðarbungu, Dyngjujökul, Kistufell, Trölladyngju, Dyngjufjöll og sjálfa Herðubreið.

 

Mögnuð kverk

Á leiðinni heim má í góðu veðri taka smá útúrdúr og ganga sjálfri kverkinni. Þar sést Skarphéðinstindur (1920 m) en einnig stór hluti af norðausturlandi

 

Bullandi stemning

Það er sérstök tilfinning að koma í Kverkfjöll og flestir sem koma þangað gleyma því aldrei, enda ósnortin víðerni eins og þau gerast best